news

Dagur mannréttinda barna er í dag 20. nóvember 2019

20 Nóv 2019

Í tilefni dagsins viljum við minn á grunnþætti mannréttinda barna.

Grunnþættirnir eins og þeir birtast í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna eru vernd, umönnun og þátttaka:

Vernd: Í Barnasáttmálanum er kveðið á um vernd grundvallarmannréttinda barna, svo sem til lífs og þroska. Þau eiga jafnframt rétt á vernd gegn hvers kyns ofbeldi; líkamlegu, andlegu og kynferðislegu, gegn vanrækslu og einelti. Einelti getur átt rætur sínar að rekja allt niður í leikskóla. Birtingarmyndin getur verið að barn sé útilokað frá leik eða sett er út á útlit eða athafnir þess. Mikilvægt er að koma í veg fyrir slíkt.

Umönnun: Öllum börnum á að tryggja velferð á sviði menntunar, heilbrigðis og félagsmála. Foreldrar bera meginábyrgð á uppeldi og umönnun barna sinna en allir þeir sem vinna með börnum eða að málefnum þeirra bera einnig ábyrgð svo og stjórnvöld.

Þátttaka: Öll börn eiga rétt á að láta skoðanir sínar í ljós í málum er þau varða og taka ber tillit til skoðana barna í samræmi við aldur þeirra og þroska. Jafnframt er mikilvægt að börnum sé leiðbeint við að setja sig í spor annarra, taka tillit og hlusta á aðra.

Einnig langar okkur að benda á heimasíðu barnaheilla, þar er mikil fróðleikur og upplýsingar sem er vert að skoða.

https://www.barnaheill.is