news

MÍÓ, stærðfræðiskimun fyrir leikskóla

31 Jan 2019

Í Aðalnámskrá leikskóla er talað um að skapa skuli aðstæður svo börnin vinni með og velti vöngum yfir stærðfræðilegum viðfangsefnum, s.s. tölum, táknum og mynstrum, sem og rými, fjarlægðum og áttum.

Haustið 2017 var ákveðið að taka inn MÍÓ, skimunartæki fyrir stærðfræði í leikskóla, í leikskólum Ísafjarðarbæjar.Starfsmenn Sólborgar hafa verið að kynna sér efnið í vetur og verið að prófa sig áfram í skráningu á stöðu barnanna.

Skimunartækið MÍÓ er ætlað fyrir leikskóla til að greina styrkleika og veikleika barna á sviði stærðfræðinnar, mæta þeim þar sem þau standa og finna þau börn sem þurfa frekari athygli og tækifæri til að vinna með þá þætti sem tengjast stærðfræðinámi þeirra.

MÍÓ var fundið upp í Noregi árið 2008 og var þýtt og staðfært yfir á íslensku af þeim Dóróþeu Reimarsdóttur, Jóhönnu Skaftadóttur og Þóru Rósu Geirsdóttur. Samkvæmt norskum rannsóknum sést greinilegur munur á þeim börnum sem hafa verið hluti af MÍÓ-verkefninu og þeim sem ekki voru hluti af því. Börnin hafa þá almennt staðið sig betur í stærðfræði í grunnskóla eftir að hafa verið hluti af MÍÓ-verkefninu í leikskóla.

MÍÓ er matslisti, eða skimun, þar sem lagðar eru fyrir börnin allskonar þrautalausnir, rúmfræði, tölur o.fl. Niðurstöður hjá hverju barni fyrir sig eru settar í skífu og hæfni barnanna í þessum þáttum flokkuð eftir því. Þannig er hægt að sjá hvar barnið er statt hverju sinni og starfsfólkið bætt við í leikjum barna það sem þarf að leggja frekari áherslu á. Stærðfræði er nefnilega svo miklu meira en plús, mínus og deiling. Rúmfræði og rökhugsun er eitthvað sem við erum alltaf að nota. Rúmfræði er t.d. að púsla eða setja saman 1 og 2. Svo þarf rökhugsun t.d. til að ákveða hvernig fötum á að fara í eftir veðri, hvaða flík við förum fyrst í o.s.frv. Þetta er allt stærðfræði.

Börnin eru í leik allan daginn en við hinir fullorðunu tengjum það ekki ekki beint við nám og þessu tilfelli við stærðfræði, en nefna má til dæmis kubbar, púsl, perlur, pinnar og margt, margt fleira. Börn niður í tveggja ára eru til að mynda farin að kubba út frá formi og litum.Í dag (eftir að innleiðingu á MÍÓ) fylgjumst við betur með því sem þau eru að gera og skráum hvernig og hvort þau geta leyst verkefnin.

Bestu kveðjur, Elsa María Thompson Sérkennslustjóri Sólborgar.